Menningarnótt verður haldin hátíðleg í miðborg Reykjavíkur laugardaginn 19. ágúst 2017. Landsbankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi og býður að venju upp á fjölbreytta menningardagskrá í Austurstræti 11.
Alls fengu 27 verkefni styrki úr Menningarnæturpotti Landsbankans þann 9. ágúst. Hægt verður að sjá afrakstur þeirra á Menningarnótt 19. ágúst. Veittir voru styrkir á bilinu 100-350 þúsund kr. til einstaklinga og hópa, samtals fjórar milljónir króna. Um er að ræða samstarfsverkefni Landsbankans og Höfuðborgarstofu en bankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi.
Starfshópur á vegum Höfuðborgarstofu valdi styrkþegana úr hópi 70 umsókna en þetta er í áttunda skipti sem veitt er úr Menningarnæturpottinum. Við úthlutunina var lögð áhersla á að styðja skemmtilega og frumlega viðburði. Áherslusvæðið í ár er Hlemmur og þar í kring og var tekið tillit til þess í styrkveitingunni. Svæðið hefur verið að byggjast hratt upp síðustu misseri og verður Hlemmur Mathöll t.d. opnuð þar á næstu dögum þar sem 10 veitingastaðir og kaupmenn bjóða upp á alls kyns kræsingar.
Landsbankinn mun til viðbótar við styrkina standa fyrir árvissri dagskrá í útibúi sínu í Austurstræti á Menningarnótt.
- Listvinafélag Hallgrímskirkju – Sálmafoss
Listvinafélag Hallgrímskirkju stendur fyrir 6 klukkutíma klukkustunda langri dagskrá þar sem flutt verður fjölbreytt kirkjutónlist. Í upphafi dagskrárinnar verða frumfluttir sex nýir sálmar sem Tónmenntasjóður kirkjunnar hefur pantað hjá jafn mörgum skáldum og tónskáldum.
- Viktoría Sigurðardóttir– Íslenskir söngleikir
Viktoría Sigurðardóttir leikkona og Halldór Bjarki Arnarsson píanóleikari flytja lög úr íslenskum söngleikjum á borð við Leg, Gretti og Gauragangi á tónleikum sem fara fram í bakgarði í Þingholtunum.
- Svanlaug Jóhannsdóttir–Í hennar sporum
Söngkonan Svanlaug Jóhannsdóttir hefur leitað uppi skópör sem eiga sér skemmtilega sögu. Saga kvennanna og skónna, rómantíkin, gleðin og átökin er flutt með sögum og söngvum. Sýningin tekur um 40 mínútur í flutningi og í henni koma fram ásamt Svanlaugu, píanóleikari og víóluleikari.
- Gallerí Port -Port3
Gallery Port býður til veislu á Menningarnótt. Um er að ræða samsýningu ungra og upprennandi íslenskra myndlistarmanna og jafnframt er boðið uppá tónleika og vinnusmiðju fyrir krakka yfir daginn.
- Haraldur Ægir Guðmundsson – Chet Baker and Me
Jazz Quartett leikur lög sem trompetleikarinn og söngvarinn Chet Baker gerði ódauðleg með þýðri rödd sinni upp úr miðri síðustu öld, ásamt úrvali eigin laga sem tengja nútímann við þá öld sem leið.
- Leikhópurinn Lotta skemmtir á Menningarnótt í Hallargarðinum.
- Álfheiður Erla Guðmundsdóttir – Kvöldtónar í Dómkirkjunni
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópransöngkona stendur fyrir kvöldtónum í Dómkirkjunni. Hún fær til sín góða gesti sem koma fram á tónleikunum með sér sem gerir dagskrána fjölbreyttari og líflegri þannig að gestir fái notið.
- Unnur Sara Eldjárn – Söngvaskáldið Serge Gainsbourg
Franska söngvaskáldið, Serge Gainsbourg er mörgum kunnugur en hann samdi tónlist í ýmsum stefnum eins og mambo, jazz, og reggí og vakti mikla athygli fyrir húmor og orðaleiki í sínum söngtextum.
- Árni Grétar Jóhannesson – Íslensk raftónlist
Íslensk raftónlist í boði Möller plötuútgáfunnar með ýmsum listamönnum. Tónleikar frá hádegi til kvölds.
- Ingi Vífill Guðmundsson – Menningarnótt í Hannesarholti
Menningarnótt verður fagnað með veglegum hætti í Hannesarholti í fallegu umhverfi þar sem áhersla verður lögð á að gefa listafólki tækifæri til að sýna list sína.
- Huldufugl – Kassinn
Kassinn er kómísk, súrrealísk og gagnvirk sýndarveruleika leikhúsupplifun sem fjallar um að festast inni í ósýnilegum kassa. Einn áhorfandi í einu fær að njóta upplifunarinnar sem verður á Hlemmi.
- Kaffislippur Reykjavík Marina
Það verður dillandi stemning á Kaffislipp að degi Menningarnætur. Þar mun tvíeyki úr Listaháskólanum syngja frumsamda og lánaða texta frá þekktum tónlistarmönnum til að hita upp gesti Menningarnætur.
- Hitt Húsið –Vagg og Velta– Stage Europe Network tónleikar
Tvær erlendar hljómsveitir koma fram á Menningarnótt. Hljómsveitirnar eru afar frambærilegar hljómsveitir sem eru að hefja feril sinn en hafa þó allar fengið ákveðið brautargengi og unnið tónlistarkeppnir sambærilegum Músíktilraununum í sínum heimalöndum.
- Barakan afrískur dans og trommuhópur
Hópurinn var stofnaður af Mamady Sano og Söndru Sano Erlingsdóttur sem sérhæfa sig í dansi og trommuleik frá Gíneu í V–Afríku.
- Hómy Reykjavík – hópur starfandi myndskreyta
Hómy Reykjavík er óformlegur sýningarhópur teiknara, illustratora og myndskreyta á Íslandi. Sýningarþemað á Menningarnótt er Betri Reykjavík – hugmyndir teiknara sem ALDREI verða að veruleika.
- Ísabella Leifsdóttir – Hlemmsöngur
Ísabella Leifsdóttir söngkona syngur ásamt meðleikara á Hlemmi. Sungin verða ýmis þekkt og óþekkt lög og væri gaman ef áhorfendur tækju undir.
- Ást á kex
Hátíð þar sem 50 ára afmæli Summer of Love verður fagnað á Kex Hostel.